Verður Diego Costa samherji Gylfa?

Diego Costa og Gylfi Þór Sigurðsson
Diego Costa og Gylfi Þór Sigurðsson AFP

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Everton, viðurkennir að hann væri áhugasamur um að fá Diego Costa, leikmann Chelsea, til liðs við sig. Gylfi Þór Sigurðsson skrifaði undir samning við Everton í gær. 

Costa hefur engan áhuga á að vera áfram í herbúðum Chelsea og neitar að mæta á æfingar. Costa sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann segist engan áhuga hafa á að æfa með Chelsea og að hann vilji ganga í raðir Atletico Madrid á Spáni. 

Atletico má hins vegar ekki fá til sín nýja leikmenn fyrr en í janúar og gæti það því verið góð lausn að Chelsea láni hann annað. 

„Auðvitað vil ég kaupa leikmenn til framtíðar en ef ég get fengið þann besta lánaðan er ég til í það. Costa er einn af þeim. Það gæti verið erfitt að fá hann hins vegar þar sem við erum ekki í Meistaradeildinni og hann vill spila þar,“ sagði Koeman í samtali við fjölmiðla eftir 2:0 sigur Everton á Hajduk Split í Evrópudeildinni í kvöld. 

mbl.is