Leyfði hestunum að hlaupa frjálsum

Mourinho segist hafa verið slakur á hliðarlínunni í dag.
Mourinho segist hafa verið slakur á hliðarlínunni í dag. AFP

Knattspyrnustjóri Manchester United, Jose Mourinho, var myndrænn í viðtölum eftir leikinn gegn Swansea og líkti spilamennsku lærisveina sinna við að leyfa hestum að hlaupa frjálsum.

„Það var hamingja í okkar leik. Það hefur oft gerst með mín lið að við erum að vinna 1:0 og getum fengið mark á okkur. Mér fannst ég vera við stjórnina, ef þið sáuð líkamstjáningu mína held ég að þið hafið séð það. Fótbolti er fótbolti og þegar maður gerir mistök getur maður fengið á sig mark svo ég var aldrei alveg rólegur. Ég var með leikmenn á bekknum sem gátu hjálpað mér.“

Swansea gerði tvöfalda skiptingu um miðjan seinni hálfleik sem gestirnir nýttu sér vel.

„Swansea lék með fimm manna vörn og á einum tímapunkti fannst þeim þeir þurfa að gera skiptingar. Þegar þeir gerðu það fengum við meira pláss og gerðum útaf við leikinn.“

mbl.is