Þurfa að nota „Gylfa-peningana“

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er líklega ekki sammála kollega sínum hjá Swansea, Paul Clement sem sagði á dögunum að liðið gæti orðið betra án landsliðsmannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar sem var seldur til Everton í síðustu viku.

Mourinho var í viðtali við enska fjölmiðla eftir öruggan 4:0 sigur United á Swansea í gær í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og telur að Swanesa þurfi að kaupa leikmenn.

„Ég vona að þessar 45 milljónir (sem liðið fékk fyrir Gylfa) verði notaðar í að kaupa leikmenn,“ sagði Mourinho við BBC.

„Hann (Clement) vann gott starf á síðustu leiktíð,“ sagði Mourinho og vísar eflaust í þá staðreynd að honum tókst að halda Swansea uppi með þunnskipaðan leikmannahóp. Gylfi Þór lék þar lykilhlutverk en hann átti beinan þátt í 49% marka Swansea á síðustu leiktíð, lagði upp 13 mörk og skoraði 9.

mbl.is