Kemur Liverpool fram hefndum?

Jordan Henderson.
Jordan Henderson. AFP

Jordan Henderson fyrirliði Liverpool vill ná fram hefndum þegar liðið mætir Sevilla í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á Anfield í kvöld.

Þetta verður fyrsta viðureign liðanna frá því þau mættust í úrslitaleiknum í Evrópudeildinni árið 2016 þar sem spænska liðið hrósaði sigri, 3:1.

„Ég vil ekki minnast úrslitaleiksins á móti Sevilla í Basel því hann er ein af mínum leiðinlegustu minningunum í fótboltanum, sjá liðið tapa svona mikilvægum leik,“ segir Henderson, sem ekki gat tekið þátt í úrslitaleiknum vegna meiðsla.

„En lið okkar hefur tekið miklum framförum frá þessum leik. Við berum virðingu fyrir Sevilla en við óttumst það ekki. Til að ná góðum úrslitum í kvöld þá verðum að spila okkar besta leik,“ segir Henderson.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, hefur ákveðið að Þjóðverjinn Loris Karius muni standa vaktina í marki Liverpool í kvöld og þá er reiknað með því að Brasilíumaðurinn Phillipe Coutinho komi við sögu í fyrsta sinn á þessu tímabili með Liverpool.

mbl.is