Diego Costa loks að losna úr prísundinni

Diego Costa.
Diego Costa. AFP

Framherjinn Diego Costa virðist loks vera að losna úr prísund sinni hjá Chelsea, en hans gamla félag Atlético Madrid er við það að kaupa hann til baka.

Bæði félög hafa sent frá sér tilkynningu um að samkomulag sé í höfn um kaupverðið. Nái hann sjálfur saman með Atlético og stenst læknisskoðun ættu skiptin að ganga í gegn í janúar.

Costa er sagður kosta 55 milljónir evra og verður um leið dýrasti leikmaður í sögu Atlético. Á sínum tíma skoraði hann 64 mörk í 135 leikjum með Atlético áður en hann gekk til liðs við Chelsea árið 2014.

Hinn 28 ára gamli Costa er ekki inni í myndinni hjá Antonio Conte, stjóra Chelsea, þrátt fyrir góða frammistöðu á síðasta tímabili en þrátt fyrir það var hann ekki seldur í sumar. Hann var meðal annars sektaður fyrir að mæta of seint til æfinga eftir sumarfrí og hefur sakað Chelsea um að koma fram við sig eins og glæpamann.

mbl.is