Gylfi getur ekki spilað með Rooney

Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney.
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney. AFP

Það er ómögulegt fyrir Everton að þeir Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, og Wayne Rooney, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands, spili saman hjá liðinu.

Þetta hefur knattspyrnustjórinn Sam Allardyce gefið í skyn eftir því sem Guardian greinir frá. Hann vísar til þess að þeir séu hvorugur með nægilegan hraða til þess að vera báðir byrjunarliðsmenn. Það gæti leitt til þess að annar þeirra verði að sætta sig við að vera í varahlutverki á næstunni, en báðir gengu þeir í raðir Everton í sumar.

Rooney var settur á bekkinn um helgina þegar Everton gerði 1:1-jafntefli við West Brom á meðan Gylfi spilaði í sinni bestu stöðu framarlega á miðjunni. Gylfi hefur lengst af leikið á vinstri kanti á tímabilinu og ekki notið sín sem skyldi.

„Ég hef talað um að við þurfum meiri hraða í liðið og núna höfum við það með Theo [Walcott] og Yannick [Bolasie]. Ég held að þegar Rooney og Gylfi spila saman þá getum við verið mjög klókir en hreyfum okkur ekki nægilega mikið. Það er ekki þeirra styrkur,“ sagði Allardyce við Guardian og gaf í skyn að það mætti búast við breytingum.

„Ég þarf að taka stóra ákvörðun um hver eigi að spila hvaða leik. Gylfi hefur þurft að spila til vinstri en ég vil sjá hvað hann getur í sinni bestu stöðu. Við erum ekki með marga snögga leikmenn og þurfum að sætta okkur við það til loka tímabils. Svo þurfum við að skoða hvernig við getum breytt liðinu og gert það betra,“ sagði Allardyce.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert