Guardiola í úrslitin í 500. leiknum

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hélt upp á 500. leik sinn sem knattspyrnustjóri með því að fara með lið sitt í úrslit í ensku deildabikarkeppninni eftir 3:2 sigur gegn Bristol City í síðari undanúrslitaleik liðanna í kvöld.

„Við erum ánægðir með að vera komnir í úrslitin. Það voru allir staðráðnir í að komast þangað. Við spiluðum frábæran leik og misstum aldrei tökin á leiknum. Þessi leikur var góð lexía fyrir leikinn gegn Cardiff í bikarnum á sunnudaginn og fyrir leikina í Meistaradeildinni,“ sagði Guardiola sem stýrir Manchester City í sínum fyrsta úrslitaleik á Wembley þann 25. febrúar þar sem mótherjinn verður annaðhvort Chelsea eða Arsenal.

Af þessum 500 leikjum sem Guardiola hefur stýrt liðum í hefur hann unnið 363 leiki og þar af 63 af þeim 92 leikjum sem hann hefur stýrt liði City.

„Við gerðum okkar besta og getum verið afar stoltir af liðinu í þessum tveimur leikjum. Við vorum nálægt því að ná jafntefli en lið City er algjört topplið og er líklega það besta sem ég hef séð. Það eru ekki mörg lið sem hafa náð að skora tvö mörk á móti liði eins og þessu,“ sagði Lee Johnson, stjóri Bristol City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert