Mourinho vill miðjumann í sumar

José Mourinho vill bæta við leikmanni á miðjuna í sumar.
José Mourinho vill bæta við leikmanni á miðjuna í sumar. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, vill ólmur bæta við sig miðjumanni í sumar til að fylla upp í tómarúmið sem Michael Carrick mun skilja eftir sig.

Hinn 36 ára Carrick hefur verið einn traustasti þjónn United á miðjunni í rúman áratug en í sumar verða skórnir lagðir á hilluna er hann gengur til liðs við þjálfarateymi Mourinho.

„Við þurfum nýjan miðjumann í sumar vegna þess að þá missum við Michael Carrick,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi sínum fyrir heimsókn United til Huddersfield í enska bikarnum síðar í dag.

Carrick hefur verið mikið frá í vetur vegna hjartsláttatruflana og hefur einn uppalinn Manchester strákur fengið þó nokkur tækifæri í hans fjarveru, hinn 21 árs Scott McTominay. Þegar Portúgalinn var spurður um hvort það komi til greina að gefa fleiri ungum strákum tækifæri á miðjunni stóð ekki á svörunum frekar en venjulega.

„Ef það að gefa þessum strákum tækifæri er að láta þá æfa með aðalliðinu reglulega, þá fengu þeir það fyrir löngu. McTominay kom ekki frá tunglinu, hann æfði með okkur á síðasta tímabili og í sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert