Lingard kom, sá og sigraði

Manchester United hafði betur, 2:1, þegar liðið mætti Chelsea í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Old Trafford í dag. Það var Jesse Lingard sem skoraði sigurmark með laglegum skalla skömmu eftir að hann kom inná sem varamaður. 

Willian kom Chelsea yfir þegar hann rak smiðshöggið á vel útfærða skyndisókn liðsins eftir rúmlega hálftíma leik. Eden Hazard renndi boltanum inn fyrir vörn Manchester United á Willian sem skoraði með föstu og góðu skoti í nærhornið. 

Adam var hins vegar ekki lengi í paradís hjá Chelsa, en Romelu Lukaku jafnaði metin fyrir Manchester United sjö mínútum síða. Fallegt samspil Manchester United endaði með því að Anthony Martial lagið boltann á Lukaku sem skilaði boltanum í netið. 

Jessi Lingard kom inná sem varamaður eftir rúmlega klukkutíma leik og skömmu eftir að hann kom inná sem varamaður tryggði hann Manchester United stigin þrjú með fallegu skallamarki. Lukaku átti þá hárnákvæma fyrirgjöf á Lingard sem skallaði boltann í netið. 

Manchester United endurheimti annað sæti deildarinnar með þessum sigri, en liðið hefur 59 stig og er tveimur stigum á undan Liverpool sem er sæti neðar.

Chelsea er hins vegar í fimmta sæti deildarinnar með 53 stig og er tveimur stigum á eftir Tottenham Hotspur er sem er sæti ofar. 

Man. Utd 2:1 Chelsea opna loka
90. mín. Olivier Giroud (Chelsea) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert