Shaw kominn með nóg af Mourinho

Luke Shaw í leikum gegn Brighton.
Luke Shaw í leikum gegn Brighton. AFP

Enski bakvörðurinn Luke Shaw er búinn að fá sig full saddan af framkonu Jose Mourinho, knattspyrnustjóra síns hjá Manchester United, ef marka má heimildir Sky.

Mourinho tók Shaw af velli í hálfleik í 2:0-sigrinum á Brighton í enska bikarnum á laugardaginn var og gagnrýndi hann eftir leik, ekki í fyrsta skipti. 

Shaw á rétt rúmlega eitt ár eftir af samningi sínum við United og er orðið ansi ólíklegt að samningurinn verði framlengdur. 

„Framkoma Mourinho í garð Shaw er hneykslanleg. Ef hann er ósáttur, ætti hann að spjalla við Shaw, ekki tala um það í fjölmiðlum. Ef þetta væri annar vinnustaður væri búið gera eitthvað í þessu sökum eineltis," sagði vinur leikmannsins í samtali við Sky. 

„Luke er sterkur og lætur Mourinho ekki eyðileggja líf sitt. Hann mun íhuga framtíð sína í sumar, en hann er staðráðinn í að vera í landsliðshóp Englands í Rússlandi," bætti hann við. Shaw hefur aðeins leikið sjö leiki í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. 

mbl.is