Klopp kennir ekki þurrum velli um jafnteflið

Klopp fyrir leikinn í dag.
Klopp fyrir leikinn í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vildi ekki nota þurran völl WBA sem afsökun fyrir 2:2-jafntefli liðanna í dag.

„Svona er boltinn,“ svaraði Klopp, spurður um ákvörðun WBA-manna um að vökva ekki völlinn fyrir leikinn. Það var gert að ásettu ráði til þess að hægja á spili Liverpool.

„Hvert félag verður að gera upp við sig hvað það vill. Ef WBA vill leggja áherslu á að halda boltanum innan liðsins á næsta ári í B-deildinni er ég viss um að þeir muni vökva völlinn.“

Þá var Klopp kampakátur með framherjann Danny Ings sem skoraði fyrsta mark sitt í meira en tvö ár. Ings hefur tvisvar sinnum meiðst illa á hné sem hefur haldið honum utan vallar.

„Þetta er frábært fyrir Ings. Hann hefði getað skorað tvö og fengið vítaspyrnu. Þetta er gott skref fyrir hann.“

mbl.is