United tapaði gegn öllum nýliðunum

Manchester-drengurinn Marcus Rashford var ekki fæddur síðast þegar United tókst …
Manchester-drengurinn Marcus Rashford var ekki fæddur síðast þegar United tókst að tapa gegn öllum nýliðunum. AFP

Manchester United tapaði 1:0-gegn nýliðum Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær og náði þar með býsna óæskilegu afreki.

Manchester-risinn hefur þar með, í fyrsta sinn í 26 ára sögu úrvalsdeildarinnar, tapað gegn öllum þremur nýliðunum á einu og sama tímabilinu.

Í október síðastliðnum töpuðu lærisveinar José Mourinho á útivelli gegn Huddersfield, 2:1, þar sem Aaron Moy og Luarent Depoitre skoruðu mörk heimamanna. Marcus Rashford klóraði í bakkann fyrir United sem gat þó ekki komið í veg fyrir fyrsta tap sitt gegn Huddersfield í 65 ár.

Í febrúar var komið að því að heimsækja nýliða Newcastle sem höfðu betur, 1:0, á St. James Park með marki Matt Richie. Var þetta fyrsti heimasigur Newcastle síðan í október.

Í gær var svo röðin komin að Brighton sem tókst að tryggja áframhaldandi veru sína í deildinni á næsta tímabili, þökk sé marki Pascal Groß í 1:0-sigri. Var þetta fyrsti sigur Brighton gegn United síðan 1982.

Rauðu djöflarnir töpuðu síðast gegn öllum nýliðunum á tímabilinu 1989-1990 en aldrei áður hafa þeir tapað öllum þremur útileikjunum í þeim einvígjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert