Lögreglan í Liverpool staðfestir líflátshótanir

Loris Karius þurrkar tárin.
Loris Karius þurrkar tárin. AFP

Lögreglan í Liverpool rannsakar líflátshótanir sem þýska markverðinum Loris Karius bárust eftir 3:1-tap Liverpool gegn Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi en Þjóðverjinn gerði sig sekan um skelfileg mistök og gaf tvö mörk.

Karius var alls staðar í brennidepli eftir leikinn, hjá sérfræðingum í sjónvarpi, og á samfélagsmiðlum þar sem reiðir stuðningsmenn Liverpool létu hann margir hverjir heyra það á meðan aðrir gátu ekki annað en vorkennt markverðinum. Aðrir vönduðu Sergio Ramos, fyrirliða Real Madrid, ekki kveðjurnar en hann braut á Mohamed Salah, besta leikmanni Liverpool, sem þurfti að fara af velli eftir hálftímaleik.

Karius gaf Real fyrsta markið með því að kasta boltanum nánast í fót Frakkans Karim Benzema þar sem boltinn lak svo í markið. Karius gat lítið gert í öðru marki Madrídinga sem Gareth Bale skoraði með glæsilegri hjólhestaspyrnu. Þriðja mark Madrid og annað mark Bale var hins vegar beint á Karius sem varði boltann afar klaufalega inn.

Í tilkynningu staðfestu lögregluyfirvöld í Liverpool að þau væru meðvituð um fjölmargar líflátshótanir í garð Þjóðverjans á samfélagsmiðlum sem „lögreglan tekur afar alvarlega og að öll möguleg brot verði rannsökuð“ segir í frétt Sky Sports.

Karius var niðurbrotinn maður eftir leikinn. Hann hágrét og gekk til stuðningsmanna Liverpool í Kiev og bað þá afsökunar á mistökum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert