Evrópukvöldið á Anfield sannfærði Alisson

Alisson.
Alisson. Ljósmynd/Heimasíða Liverpool

Liverpool gekk í dag frá félagsskiptum á markverðinum Alisson en hann kemur til enska félagsins frá Roma á Ítalíu fyrir metfé.

Liverpool og Roma mættust í eftirminnilegu einvígi í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili sem enska liðið vann samanlagt 7:6. Alisson segir leikinn á Anfield, sem fór 5:2 fyrir heimamenn, hafa haft áhrif á ákvörðun sína.

„Það hafði áhrif á ákvörðun mína,“ sagði hann í viðtali á heimasíðu Liverpool en stuðningsmenn liðsins sköpuðu rafmagnað andrúmsloft og frábæra stemning á meðan á leiknum stóð.

„Þegar þú tekur svo mikilvæga ákvörðun í lífinu spilar margt inn í. Ég er ekki bara að skipta um félag, ég er að breyta lífi mínu og fjölskyldu minnar.“

„Leikurinn á Anfield hafði áhrif en ég horfði líka á aðra leiki og sá hvernig fótbolta Klopp lætur liðið spila.“

Alisson sagðist að lokum hafa komið til Liverpool til að vinna titla. „Þessi klúbbur er risastór ef þú skoðar leikmennina sem hafa spilað hér og titlana sem félagið hefur unnið. Ég vil taka þátt í að skapa nýja sögu og hjálpa Liverpool að rísa á toppinn á nýjan leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert