Áfram skýtur Mourinho á Liverpool

José Mourinho og lærisveinar hans í Manchester United mæta Leicester …
José Mourinho og lærisveinar hans í Manchester United mæta Leicester City í upphafsleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun á Old Trafford. AFP

Það liggur ekkert sértaklega vel á José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, þessa dagana. Portúgalinn er ósáttur með að ekki hafi verið fleiri leikmenn keyptir til félagsins og þá var hann pirraður yfir því á dögunum hversu seint margir leikmenn United mættu til æfinga hjá félaginu eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi.

Fyrr í sumar gerði stjórinn þá kröfu að blaðamenn myndu setja pressu á Liverpool um að vinna ensku úrvalsdeildina og þá lét hann þau ummæli falla að Liverpool væri að kaupa allt og alla í sumarglugganum. Hann hélt svo áfram á blaðamannafundi í morgun en United mætir Leicester City í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

„Það er erfitt fyrir mig að trúa því að Manchester United hafi endað í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Þegar ég hlusta á sérfræðinga og les blöðin þá trúi ég því ekki að við höfum endað í öðru sæti, miðað við þá gagnrýni sem liðið hefur fengið og fær reglulega.“

„Þið getið látið lið eins og Liverpool, sem endaði fyrir neðan okkur, líta frábærlega út og það er talað um Liverpool og Tottenham eins og lið sem séu alltaf að vinna eitthvað stórkostlegt en samt enduðum við fyrir ofan þessi lið. Það er erfitt að trúa því að ég hafi unnið átta stóra titla og þrjá úrvalsdeildartitla á ferlinum. Samt sem áður gæti annað sætið í fyrra með United verið eitt af mínum stærstu afrekum,“ sagði stjórinn enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert