Tottenham í sögubækurnar

Mauricio Pochettino hefur gert mjög góða hluti með Tottenham síðan ...
Mauricio Pochettino hefur gert mjög góða hluti með Tottenham síðan hann tók við liðinu árið 2014. AFP

Enska knattspyrnufélagið Tottenham skrifaði sig í sögubækurnar í gær á lokadegi félagaskiptagluggans en félagið varð fyrsta liðið í sögu sumargluggans til þess að kaupa ekki einn einasta leikmann í glugganum.

Sumarglugginn var fyrst settur á laggirnar árið 2003 en það var Leeds United sem átti gamla metið yfir fæsta keypta leikmenn. Leeds keypti einn leikmann sumarið 2003 og hefur það met staðið, alveg þangað til í gær. 

Það fór ekki vel hjá Leeds þann veturinn en liðið féll úr deildinni 2004. Það verður að teljast ólíklegt að Tottenham fari niður enda liðið með afar öflugan leikmannahóp. Tottenham var sterklega orðað við þá Jack Grealish og Joao Mário undir lok félagaskiptagluggans en ekkert varð úr þeim viðskiptum.

mbl.is