Shaw heilsast vel eftir höfuðhöggið

Luke Shaw fékk slæmt höfuðhögg í leik Englands og Spánverja ...
Luke Shaw fékk slæmt höfuðhögg í leik Englands og Spánverja í gær. Bera þurfti hann af velli með hálsspelku og súrefnisgrímu. AFP

Knattspyrnumaðurinn Luke Shaw átti heldur leiðinlega endurkomu með enska landsliðinu í gærkvöldi er hann þurfti að fara af velli meiddur snemma í síðari hálfleik eftir þungt höfuðhögg í 2:1-tapi gegn Spáni á Wembley.

Shaw, sem var að spila sinn fyrsta landsleik í 17 mánuði, lenti í árekstri við Spánverjann Dani Carvajal og lá óvígur eftir. Um fimm mínútna töf var gerð á leiknum og bakvörðurinn var að lokum borinn af velli í hálsspelku og með súrefnisgrímu.

Höggið reyndist þó ekki alvarlegra en það að Shaw er á batavegi og verður ekki lengi frá. Hann mun þó ekki æfa með Englendingum í vikunni né taka þátt í leiknum gegn Sviss á þriðjudaginn kemur en það eru eðlilegar varúðarráðstafanir.

mbl.is