Sky rýnir í „erfiðleika“ Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson var niðurdreginn eftir tapið gegn Belgíu í ...
Gylfi Þór Sigurðsson var niðurdreginn eftir tapið gegn Belgíu í gærkvöld og fyrirliðinn mætti ekki í viðtöl eftir leik. Næst á dagskrá hjá honum er leikur við West Ham á sunnudag. mbl.is/Eggert

„Af hverju á Gylfi Sigurðsson enn erfitt uppdráttar hjá Everton?“ Svona hljómar fyrirsögn á vef Sky Sports þar sem farið er yfir ýmsar tölur varðandi frammistöðu Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton.

Í greininni segir að Gylfi hafi haft takmörkuð áhrif á leik Everton á síðustu leiktíð, sinni fyrstu eftir að hafa verið keyptur sem lykilmaður fyrir 50 milljónir punda frá Swansea. Þar segir að Gylfi virðist áfram eiga erfitt uppdráttar á þessari leiktíð, undir stjórn Marco Silva sem tók við Everton í sumar.

Gylfi var tekinn af velli þegar 14 mínútur voru eftir í 1:1-jafntefli Everton og Huddersfield í síðustu umferð fyrir landsleikjahléið. Hann var einnig tekinn af velli í jafntefli við Wolves í fyrsta leik tímabilsins, í fyrri hálfleik eftir að Phil Jagielka fékk rautt spjald. Hann lék 90 mínútur í sigri á Southampton og jafntefli við Bournemouth. Everton mætir næst West Ham á sunnudaginn.

Í greininni segir að á 76 mínútum gegn Huddersfield hafi Gylfi aðeins átt 10 heppnaðar sendingar, þar af eina á fremsta þriðjungi vallarins og með henni skapað eitt færi. Hann hafi aldrei komist með boltann framhjá varnarmanni, snert boltann í teignum eða reynt skot. Everton-liðið allt hafi átt 328 sendingar í leiknum og varamaðurinn Ademola Lookman átt fleiri sendingar en Gylfi.

Bent er á að Gylfi hafi skorað fjögur mörk og lagt upp þrjú á síðustu leiktíð, en að stjóraskipti á tímabilinu hafi ekki hjálpað Everton-liðinu. Gylfi hafi ekki haft þau áhrif sem vonast var til og aðeins skapað 16 færi á allri leiktíðinni, færri en liðsfélagar á borð við Dominic Calvert-Lewin og Leighton Baines.

Á leiktíðinni hingað til hefur Gylfi átt 15 heppnaðar sendingar að meðaltali á hverjum 90 mínútum. Það skilar honum í 79. sæti af 83 miðjumönnum sem spilað hafa talsvert á leiktíðinni. Gylfi hefur átt 4,6% af heppnuðum sendingum Everton en til samanburðar nefnir Sky að Christian Eriksen eigi 11,4% af sendingum Tottenham, David Silva eigi 10,4% af sendingum Manchester City og James Maddison eigi 9,9% af sendingum Leicester. Allt séu þetta leikmenn sem spili svipaða stöðu og Gylfi.

Í greininni er þó einnig komið inn á þá staðreynd að undir stjórn Silva reyni Everton að sækja meira fram kantana en í gegnum miðjuna. Gylfi eigi hins vegar að vera aðalmaðurinn í að skapa mörk fyrir liðið og á meðan ekki takist að koma honum betur inn í leikina muni það reynast Everton erfitt að stjórna leikjum og brjóta niður varnir andstæðinganna.

Greinina má lesa hér.

mbl.is