Enginn áhugi á samstarfi við Amazon

Það hefði verið gaman að fylgjast með Liverpool í nýrri …
Það hefði verið gaman að fylgjast með Liverpool í nýrri heimildarmynd Amazon en Jürgen Klopp sagði nei takk. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hafði lítinn áhuga á því að leyfa bandaríska frumkvöðlinum Amazon að taka upp heimildarmynd um enska knattspyrnufélagið en það er Daily Mail sem greinir frá þessu.

Amazon gerði heimildarmynd um enska knattspyrnufélagið Manchester City á síðustu leiktíð sem vakið hefur mikla lukku á meðal knattspyrnuáhugamanna. Amazon hafði samband við Liverpool og vildi fá að fylgja liðinu eftir á þessari leiktíð en John W. Henry, aðaleigandi félagsins, var mjög spenntur fyrir hugmyndinni.

Klopp hafði hins vegar lokaorðið þegar kom að því að taka ákvörðun og hann hafði lítinn áhuga á því að fá myndbandsupptökuvélar inn í klefann. Klopp taldi að myndavélarnar myndu trufla leikmennina og að þeir myndu breyta hegðun sinni í klefanum með myndavélarnar viðstaddar. Amazon mun nú snúa sér að þýska stórliðinu Bayern München samkvæmt fréttum á Englandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert