Leno pirraður á bekkjarsetunni

Bernd Leno byrjaði á milli stanganna hjá Arsenal í gær.
Bernd Leno byrjaði á milli stanganna hjá Arsenal í gær. AFP

Bernd Leno, markmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, er pirraður á hlutverki sínu hjá félaginu. Leno gekk til liðs við Arsenal frá Bayer Leverkusen í sumar en enska félagið borgaði 22,5 milljónir punda fyrir leikmanninn. 

Petr Cech, fyrirliði Arsenal, hefur haldið stöðu sinni sem aðalmarkmaður liðsins á leiktíðinni en Leno fékk þó tækifæri í byrjunarliðinu í 4:2-sigri liðsins gegn Vorskla í E-riðli Evrópudeildar UEFA í gær og stóð sig vel.

„Ég kom til félagsins til þess að spila alla leiki. Ég er hins vegar kominn í nýtt land, í nýtt félag og kannski þarf ég tíma til aðlagast. Þetta hefur hins vegar verið pirrandi fyrir mig en ég mun halda áfram að leggja hart að mér á æfingasvæðinu.“

„Stjórinn hefur sagt að hann muni rótera liðinu reglulega og hlutirnir eru fljótir að breytast í fótboltanum. Ég mun bíða áfram eftir mínu tækifæri og ef allt gengur að óskum mun ég nýta það vel, þegar þar að kemur,“ sagði Leno.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert