Hazard vill vinna með Mourinho á ný

Eden Hazard.
Eden Hazard. AFP

Eden Hazard, knattspyrnumaður Chelsea, segist iðrast þess hvernig tími José Mourinho endaði hjá Chelsea tímabili 2015 til 2016 og vill Belginn gjarnan fá annað tækifæri til að spila undir hinum skrautlega Portúgala.

Mourinho, í annað sinn sem stjóri Chelsea, varð enskur meistari með liðið árið 2015 en strax næsta haust stóð ekki steinn yfir steini hjá liðinu sem tapaði hverjum leiknum á fætur öðrum áður en Portúgalinn var látinn fara rétt fyrir jól. Hazard var sjálfum sér ekki líkur á þessum tíma, spilaði ansi illa og var af mörgum talinn einn þeirra leikmanna sem vildi helst losna við þjálfarann.

„Á 12 árum hef ég átt aðeins eitt slæmt tímabili, síðustu sex mánuðina undir Mourinho,“ sagði Hazard í einlægu viðtali við belgíska dagblaðið HLN. „Að hluta til var það sjálfum mér að kenna, eftir sumarfríið báðum við leikmenn um lengra frí og ég sneri aftur í lélegu formi.“

„Þetta voru ekki skemmtilegir tímar. Við unnum ekki leiki og skemmtum okkur ekki á æfingu, það var fyrir bestu að leiðir skildi. Ef ég er þó spurður hvort það sé einn þjálfari sem ég myndi vilja vinna með á nýjan leik, myndi ég segja Mourinho.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert