Óttast að Welbeck hafi ökklabrotnað

Danny Welbeck.
Danny Welbeck. Ljósmynd/Twitter

Óttast er að Danny Welbeck hafi ökklabrotnað í leik Arsenal og Sporting Lissabon sem stendur nú yfir í Evrópudeildinni á Emirates Stadium.

Welbeck lenti illa á fætinum eftir að hafa farið upp í skallaeinvígi og lá hann lengi í grasinu og virtist mjög þjáður.

Reynist Welbeck vera ökklabrotinn er ljóst að hann leikur vart meira með á þessu tímabili.

Welbeck var borinn út af á 29. mínútu leiksins og leysti Pierre-Emerick Aubameyang hann af hólmi en staðan er 0:0 í hálfleik.

Welbeck var í dag valinn í enska landsliðshópinn sem mætir Bandaríkjamönnum og Króötum í vináttuleikjum síðar í þessum mánuði.

mbl.is