Framtíð Mata í mikilli óvissu

Juan Mata hefur ekki átt fast sæti í liði United …
Juan Mata hefur ekki átt fast sæti í liði United á þessari leiktíð. AFP

Juan Mata, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, verður samningslaus næsta sumar. Manchester United hefur ekki enn þá boðið honum nýjan samning og honum er því frjálst að ræða við önnur félög í janúar á næsta ári. Fari svo að United bjóði honum ekki nýjan samning, getur hann yfirgefið félagið frítt næsta sumar.

Mata hefur ekki átt fast sæti í liði Manchester United síðan José Mourinho tók við stjórnartaumunum hjá félaginu árið 2016. Þrátt fyrir það hefur leikmaðurinn alltaf staðið sig vel, þegar hann hefur fengið tækifæri en hann var á skotskónum í 2:1-sigri liðsins gegn Juventus í Meistaradeild Evrópu á dögunum. Mata hefur byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Mata kom til Manchester United frá Chelsea árið 2014 en það var David Moyes, fyrrverandi stjóri United, sem keypti hann á sínum tíma en Mourinho var þá stjóri Chelsea. Mata hefur spilað tæplega 150 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 31 mark en hann er afar vinsæll hjá stuðningsmönnum United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert