Sturridge kærður og í slæmum málum

Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. AFP

Daniel Sturridge, framherji Liverpool, er í afar slæmum málum eftir að enska knattspyrnusambandið kærði hann fyrir að hafa brotið reglur þess hvað veðmál varðar. BBC greinir frá.

Sturridge er sakaður um að hafa veðjað á knattspyrnuleiki, en atvinnumönnum er með öllu óheimilt að gera það á meðan á ferlinum stendur. Skiptir þá engu hvar eða í hvaða deild er veðjað.

Samkvæmt kærunni á brotið eða brotin að hafa átt sér stað í janúar síðastliðnum, en Sturridge fær frest til 20. nóvember til þess að svara ásökunum. Ljóst er að hann gæti verið í mjög slæmum málum ef hann verður fundinn sekur, en skemmst er að minnast þess að Joey Barton fékk fyrir nokkrum misserum langt bann frá keppni vegna veðmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert