Höfnuðu United og Tottenham

Mauricio Pochettino er ekki sáttur við reglurnar í ensku úrvalsdeildinni.
Mauricio Pochettino er ekki sáttur við reglurnar í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Félögum á borð við Manchester United og Tottenham varð ekki að ósk sinni á fundi félaganna í ensku úrvalsdeildinni í gær og tókst ekki að knýja fram breytingar á lokun félagaskiptaglugga deildarinnar.

Á nýliðnu sumri fengu liðin í deildinni aðeins að kaupa nýja leikmenn til 9. ágúst og glugganum var lokað þann dag, einum sólarhring áður en keppnin hófst í deildinni. Undanfarin ár hafði verið svigrúm til 31. ágúst til að bæta leikmönnum í hópinn.

Samkvæmt heimildum Daily Mirror var tillagan um að breyta aftur til fyrra horfs felld með ellefu atkvæðum gegn níu en samkvæmt blaðinu voru Manchester United og Tottenham meðal þeirra félaga sem sóttu það harðast að lengja tímann á ný.

„Ef þetta er borið saman við það sem gerist annars staðar í Evrópu þá stöndum við mjög illa að vígi og þetta hjálpar ekki liðunum í úrvalsdeildinni. Við erum á leið i Meistaradeild Evrópu og höfum 20 dögum skemmri tíma en keppinautarnir til að styrkja okkar lið," sagði Mauricio Pochettino knattspyrnustjóri Tottenham í sumar, en Tottenham var eina félagið í úrvalsdeildinni sem keypti engan leikmann fyrir þetta tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert