Ekki pláss fyrir þá sem leggja sig ekki alla fram

José Mourinho er með United í 8. sæti, átján stig …
José Mourinho er með United í 8. sæti, átján stig frá toppnum. AFP

José Mourinho var með þá Paul Pogba og Romelu Lukaku báða á varamannabekknum þegar Manchester United mætti Arsenal á Old Trafford í kvöld, þar sem liðin gerðu 2:2-jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Lukaku og Pogba komu báðir inn á í seinni hálfleik en Mourinho gerði alls sjö breytingar á byrjunarliði sínu frá 2:2-jafnteflinu við Southampton um helgina.

Í allan vetur hefur verið rætt og ritað um stirðleika í samskiptum Mourinho og Pogba og vefmiðillinn Teamtalk veltir upp þeirri spurningu hvort að Mourinho hafi beint spjótum sínum að Frakkanum í orðum sínum í leikskránni sem dreift var á Old Trafford í kvöld. Þar skrifaði Mourinho:

„Við verðum að breyta veikleikum okkar í styrkleika með alvöruvilja, stolti og þrá í að vinna leikinn. Það er ekki pláss fyrir þá sem eru ekki tilbúnir að leggja sig alla fram.“

Eftir leik kvaðst Mourinho ánægður með baráttuna í liðinu: „Menn lögðu allt í sölurnar og urðu mjög þreyttir. Sumir höfðu ekkert spilað á leiktíðinni, Chris Smalling spilar þrátt fyrir að eiga erfitt, en Arsenal-menn voru hættulegir þegar við misstum boltann á slæmum stöðum. Menn lögðu hjarta og sál í leikinn, og bara sem dæmi þá lagði Rashford allt í sölurnar. En maður fann það jafnvel á bekknum að það var svolítil taugaveiklun hjá okkur þegar boltinn kom inn á aftasta þriðjunginn,“ sagði Mourinho.

Allir vita að sjálfstraustið er ekki mikið

Chris Smalling og Nemanja Matic ræddu einnig við BT Sport eftir leikinn í kvöld:

„Bæði lið sóttu. Þetta var frábær leikur fyrir stuðningsmennina en mér fannst við verðskulda stig. Allir vita að sjálfstraustið er ekki mikið, en þetta er baráttuandinn sem við þurfum að sýna. Það eru allir tilbúnir að spila alls staðar þar sem að stjórinn biður okkur um,“ sagði Matic.

„Við vitum allir að við erum í erfiðum málum og það eru allir að reyna sitt besta til að koma okkur upp úr þessu. Það leggja allir sitt að mörkum. Við þrýstum á þá því við vitum hvernig þeir vilja spila og mér fannst við óheppnir að ná ekki inn þriðja markinu,“ sagði Smalling.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert