Vilja að Fellaini fái bann fyrir hártog

Marouane Fellaini í baráttu við Shkodran Mustafi á Old Trafford ...
Marouane Fellaini í baráttu við Shkodran Mustafi á Old Trafford í gærkvöld. AFP

Stuðningsmenn Arsenal kalla eftir því að Marouane Fellaini leikmaður Manchester United verði úrskurðaður í leikbann fyrir að toga í hárið á Matteo Guendouzi í viðureign Manchester United og Arsenal á Old Trafford í gærkvöld.

Fellaini, sem er orðinn snöggklipptur, togaði í hárið á hinum hárprúða Guendouzi þegar hann var að geysast upp í skyndisókn Arsenal undir lok leiksins og fékk Belginn ekki einu sinni gult spjald fyrir uppátæki sitt.

Stuðningsmenn Arsenal minna á að Robert Huth, fyrrverandi leikmaður Leicester, fékk þriggja leikja bann fyrir að toga í lubbann á Fellaini í viðureign Leicester og Manchester United fyrir tveimur árum.

mbl.is