Mourinho verður ekki rekinn

Það gengur hvorki né rekur hjá Mourinho og lærisveinum hans.
Það gengur hvorki né rekur hjá Mourinho og lærisveinum hans. AFP

Manchester United hefur ekki uppi nein áform um að reka knattspyrnustjórann José Mourinho en fjölmargir stuðningsmenn félagsins vilja fá Portúgalann í burtu vegna slaks gengis liðsins á tímabilinu.

Manchester United tapaði fyrir erkifjendunum í Liverpool í gær og er 19 stigum á eftir Liverpool sem trónir á toppi deildarinnar eftir 17 umferðir. Samkvæmt heimildum breska blaðsins Mirror verður Mourinho ekki rekinn en tveir síðustu stjórar liðsins, Louis van Gaal og David Moyes, voru látnir taka poka sinn þegar ljóst var að liðið yrði ekki á meðal fjögurra efstu.

Mourinho skrifaði undir nýjan samning við Manchester United á þessu ári og hefur sú ákvörðun stjórnar Manchester United verið gagnrýnd af fyrrverandi leikmönnum félagsins til að mynda Gary Neville og Paul Scholes.

Manchester United, sem er í sjötta sæti deildarinnar, sækir Aron Einar Gunnarsson og félaga hans í Cardiff heim á laugardaginn.

mbl.is