Lovren úrskurðaður í bann

Dejan Lovren missir af næsta keppnisleik Króata.
Dejan Lovren missir af næsta keppnisleik Króata. AFP

Knattspyrnumaðurinn Dejan Lovren var í dag úrskurðaður í eins leiks bann með króatíska landsliðinu fyrir ummæli sem hann lét falla um Sergio Ramos eftir leik Króata og Spánverja í Þjóðadeildinni á síðasta ári. 

Króatía vann 3:2-sigur í leiknum og Lovren fagnaði með því að fara á Instagram og tjá sig um Ramos. „Ég gaf honum gott olnbogaskot," sagði Lovren og virtist stoltur. Hann hélt svo áfram og kallaði leikmenn Spánverja aumingja. 

Ætla má að Lovren muni vel eftir viðskiptum Ramos og Mo Salah í úrslitaleik meistaradeildarinnar, en Salah meiddist illa á öxl eftir árekstur við Ramos. Lovren missir af leik Króata gegn Aserbaídsjan í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM í mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert