Sarri ósáttur við framgöngu Bayern

Maurizio Sarri er ekki sáttur við forráðamenn Bayern München.
Maurizio Sarri er ekki sáttur við forráðamenn Bayern München. AFP

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, er allt annað en sáttur við framgöngu forráðamanna Þýskalandsmeistara Bayern München. Bayern hefur síðustu daga reynt að kaupa Callum Hudson-Odoi frá enska félaginu. 

Chelsea er búið að hafna fjórum tilboðum Bayern í leikmanninn unga, en það síðasta hljómaði upp á 35 milljónir punda. Sarri sakar Bayern um vanvirðingu með því að lýsa opinberlega yfir áhuga sínum á leikmanninum. 

„Þetta er ekki fagmannlegt því þeir eru að tala um leikmann sem er samningsbundinn Chelsea. Þeir bera enga virðingu fyrir Chelsea. Ég er mjög ánægður með leikmanninn og vill halda honum. Hann er að bæta sig mikið," sagði Sarri á blaðamannafundi í dag.

mbl.is