Aron og félagar fengu stig í fallslag

Burnley vann góðan sigur á Fulham.
Burnley vann góðan sigur á Fulham. AFP

Aron Einar Gunnarsson og liðsfélagar hans í Cardiff gerðu í dag markalaust jafntefli við Huddersfield á heimavelli sínum í fallslag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Aron Einar spilaði allan leikinn fyrir Cardiff sem er í 17. sæti með 19 stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti. Huddersfield er enn í neðsta sæti með 11 stig, átta stigum frá Cardiff og öruggu sæti.

Jóhann Berg Guðmundsson lék ekki með með Burnley vegna meiðsla í mikilvægum 2:1-heimasigri á Fulham. André Schürrle kom Fulham yfir strax á 2. mínútu en Joe Bryan og Denis Odoi skoruðu báðir sjálfsmark á þriggja mínútna kafla um miðbik fyrri hálfleiks og komu Burnley yfir. Ekkert mark var svo skorað í síðari hálfleik. 

Burnley fór upp í 21 stig og 15. sæti með sigrinum og er liðið þremur stigum fyrir ofan fallsætin. Fulham er í næstneðsta sæti með 14 stig. 

Southampton vann góðan 2:1-útisigur á Leicester. James Ward Prowse og Shane Long skoruðu mörk Southampton í fyrri hálfleik en Yan Valery fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt hjá Southampton undir lok fyrri hálfleiks. 

Leicester nýtti sér liðsmuninn og minnkaði muninn í 2:1 með marki Wilfred Ndidi en þrátt fyrir mikla pressu tókst heimamönnum ekki að jafna metin og er Southampton komið upp úr fallsæti. 

Loks vann Watford 2:1-útisigur á Crystal Palace. Craig Cathcart og Tom Cleverley skoruðu mörk Watford og Cathcart skoraði einnig mark Palace er hann skoraði sjálfsmark. 

Southampton er komið upp úr fallsæti eftir sigur á Leicester.
Southampton er komið upp úr fallsæti eftir sigur á Leicester. AFP
mbl.is