„Ein mín stærstu mistök“

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að stærstu mistök sín á félagaskiptamarkaðnum hafi verið þau að semja ekki við Senegalann Sadio Mané þegar hann var við stjórnvölinn hjá þýska liðinu Borussia Dortmund.

Klopp átti þess kost að fá Mané frá austurríska liðinu Salzburg en ekkert varð úr því. Þess í stað fór Senegalinn til Southampton en Liverpool keypti hann árið 2016.

„Ég hef gert nokkur mistök í lífi mínu og ein þau stærstu voru þau að taka ekki Sadio þegar ég var hjá Dortmund. Við vorum saman á skrifstofunni og ég ræddi við hann. Eftir á var ég ekki sannfærður en það voru mín mistök.

Hann er frábær strákur og lífið gaf mér annað tækifæri til að vinna með honum og vonandi kemur það okkur báðum að gagni. Þann tíma sem ég hef verið með Sadio Mané hefur hann verið frábær. Ég elska þennan strák. Hann er magnaður leikmaður,“ segir Klopp í viðtali við enska blaðið Liverpool Echo.

Mané lék sinn 100. leik í Liverpool-treyjunni á laugardaginn þegar liðið hrósaði 1:0 útisigri gegn Brighton og náði þar með sjö stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Manchester City getur minnkað það forskot í kvöld en þá mætir liðið Wolves á heimavelli. Í þessum 100 leikjum hefur Mané skorað 42 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert