Solskjær er bjartsýnn á nýja samninga

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í morgun í aðdraganda viðureignar United við Arsenal í enska FA-bikarnum annað kvöld.

Solskjær staðfesti að Marcos Rojo og Marouane Fellaini yrðu ekki með United í leiknum vegna meiðsla, en bæði Chris Smalling og Luke Shaw væru mættir aftur til æfinga. Smalling var meiddur og Shaw var veikur og þurfti að draga sig út úr byrjunarliðinu gegn Brighton um liðna helgi á síðustu stundu.

Solskjær sagðist á fundinum vera bjartsýnn á að þeir David de Gea og Anthony Martial myndu framlengja samninga sína á Old Trafford. Báðir eru samningsbundnir til 2020 en félagið vill gera nýja og lengri samninga við þá báða.

„Félagið er á réttri leið með það, en ég læt aðra sjá um þetta. Ég veit ekki hvað er langt í samkomulag, en vonandi getum við gefið góðar fréttir af stöðu mála á næstu vikum,“ sagði Solskjær, sem vonast til þess að vinna áttunda leikinn í röð síðan hann kom til United í desember.

Leikur United og Arsenal fer fram á Emirates-leikvanginum í Lundúnum annað kvöld.

mbl.is