Of mikil pressa á tveimur leikmönnum

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Marco Silva knattspyrnustjóri Everton segir að leikmenn liðsins geti ekki lagt alla pressuna á Gylfa Þór Sigurðsson og Richarlison að skora í hverjum leik með liðinu.

Þeir Gylfi og Richarlison hafa komið að meira en helmingnum af 36 mörkum Everton í deildinni á tímabilinu. Richarlison er markahæstur Everton-manna með 10 mörk og Gylfi Þór hefur skorað 9. Hvorugur þeirra var á skotskónum á laugardaginn þegar Everton tapaði á heimavelli fyrir Wolves 3:1.

„Þetta eru leikmennirnir, annar með tíu mörk en hinn níu, sem eru mikilvægir fyrir okkur en það er ekki hægt að leggja alla pressu á einn eða tvo leikmenn. Við þurfum að leysa vandamálin í sameiningu og þetta er tíminn fyrir suma að stíga upp því þú getur ekki alltaf reiknað með því að Richarlison eða Gylfi skori,“ sagði Silva við fréttamenn.

Everton á erfiðan leik fyrir höndum á miðvikudagskvöldið en þá tekur liðið á móti Englandsmeisturum Manchester City í fyrsta leik 26. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert