Lloris hetja Tottenham gegn Leicester

Hugo Lloris ver vítaspyrnu frá Jamie Vardy á ögurstundu.
Hugo Lloris ver vítaspyrnu frá Jamie Vardy á ögurstundu. AFP

Hugo Lloris og Christian Eriksen áttu báðir frábæran leik fyrir Tottenham þegar liðið fékk Leicester í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Wembley í dag en Eriksen lagði upp eitt mark og skoraði annað í 3:1-sigri Tottenham á meðan Lloris gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu á ögurstundu í leiknum.

Davinson Sánchez kom Tottenham yfir á 33. mínútu með laglegum skalla eftir frábæra fyrirgjöf Christians Eriksens og staðan því 1:0 í hálfleik. Á 60. mínútu var dæmd vítaspyrna á Tottenham og Jamie Vardy steig á punktinn, nýkominn inn á sem varamaður, en Hugo Lloris, markmaður Tottenham, varði meistaralega frá Vardy á punktinum.

Eriksen tvöfaldaði svo forystu Tottenham stuttu síðar og staðan orðin 2:0. Jamie Vardy tókst að minnka muninn fyrir Leicester með marki af stuttu færi úr teignum yfir fyrirgjöf Ricardos Pereiras á 76. mínútu. Leikmenn Leicester lágu ansi þungt á Tottenham á lokamínútum leiksins og Son Heung-min innsiglaði sigur Tottenham í uppbótartíma eftir skyndisókn.

Tottenham er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 60 stig, tveimur stigum á eftir Manchester City sem mætir Chelsea síðar í dag. Leicester er í tólfta sæti deildarinnar með 32 stig eftir 26 umferðir.

Tottenham 3:1 Leicester opna loka
90. mín. Heung-Min Son (Tottenham) skorar 3:1 - Son klárar þetta fyrir Tottenham eftir skyndisókn. Skeiðar upp allan völlinn er einn á móti Schmeichel sem kemur engum vörnum við í markinu.
mbl.is