Vardy fór ískaldur á vítapunktinn

Jamie Vardy lætur skotið ríða af úr vítaspyrnunni.
Jamie Vardy lætur skotið ríða af úr vítaspyrnunni. AFP

Það vakti athygli að Jamie Vardy var ekki í byrjunarliði Leicester City í leiknum gegn Tottenham á Wembley í gær þar sem Tottenham fór með sigur af hólmi 3:1.

Vardy lék síðasta hálftíma leiksins en honum var skipt inn á þegar Leicester fékk vítaspyrnu. Vardy er vítaskytta liðsins og hann fór ískaldur á punktinn en brást þar bogalistin. Hugo Lloris markvörður Tottenham varði spyrnu Vardys en hann kom engum vörnum við skömmu síðar þegar Vardy skoraði af stuttu færi.

„Ég sagði við hann; ef þér finnst að þú getir tekið vítaspyrnuna þá getur þú gert það. Það er ekkert vandamál,“ sagði Claude Puel, knattspyrnustjóri Leicester, eftir leikinn en hann var harðlega gagnrýndur fyrir að byrja með Vardy á bekknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert