Langsóttur draumur Barca um Rashford

Marcus Rashford hefur heillað forráðamenn Barcelona.
Marcus Rashford hefur heillað forráðamenn Barcelona. AFP

Spænska blaðið El Mundo Deportivo segir að enski landsliðsframherjinn Marcus Rashford sé ofarlega á óskalista Barcelona en að nær ómögulegt virðist að fá leikmanninn frá Manchester United.

Spænska blaðið segir að forráðamenn Barcelona séu raunsæir og geri sér grein fyrir því að mjög flókið geti reynst að fá Rashford, þar sem engin klásúla sé í samningi hans við United um að hann sé falur fyrir ákveðna upphæð. Ljóst sé að United meti leikmanninn á vel yfir 100 milljónir evra.

Rashford, sem er 21 árs, hefur fest sig í sessi sem aðalframherji United á kostnað Romelu Lukaku. Hann hefur skorað 10 mörk í 32 leikjum á tímabilinu og virðist njóta sín vel eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við stjórnartaumunum. Í frétt El Mundo Deportivo segir að forráðamenn United líti svo á að Rashford sé alls ekki til sölu enda sé hann uppalinn United-maður og ætlað að vera lykilmaður í liðinu um ókomin ár.

mbl.is