Gæti skrifað bók um hann

Jürgen Klopp fagnar eftir sigurinn gegn Bayern München í fyrrakvöld.
Jürgen Klopp fagnar eftir sigurinn gegn Bayern München í fyrrakvöld. AFP

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í liði Liverpool geta farið á toppinn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina.

Liverpool er stigi á eftir Manchester City og það stefnir í æsispennandi einvígi liðanna um titilinn. Liverpool sækir Fulham heim á sunnudaginn en City spilar ekki í deildinni um helgina heldur mætir það B-deildarliði Swansea í bikarnum á morgun.

Klopp og strákarnir hans eru enn í sigurvímu eftir að hafa lagt Bayern München þar sem Virgil van Dijk skoraði eitt mark og lagði upp annað. Hollendingurinn hefur verið magnaður fyrir Liverpool á tímabilinu.

„Ég gæti skrifað bók um hæfileika hans og styrk og hversu mikið mér líkar við hann. Þvílík manneskja sem hann er. Hann er svo ungur en er þegar orðinn svo þroskaður og góður,“ segir Klopp um van Dijk, sem að margra mati er orðinn einn besti miðvörður í heimi.

mbl.is