Sagður hafa skallað stjóra mótherjanna

Joey Barton.
Joey Barton. Ljósmynd/fleetwoodtownfc.com

Lögregluyfirvöld í Suður-Jórvíkurskíri á Englandi eru með til rannsóknar atvik eftir leik Barnsley og Fleetwood í C-deildinni í gær þar sem Joey Barton, knattspyrnustjóri Fleetwood, er sagður hafa skallað kollega sinn hjá Barnsley, Daniel Stendel, í andlitið.

Barton var stöðvaður af lögreglu fyrir utan leikvanginn þegar hann ætlaði að aka þaðan burt eftir leikinn og Sky Sports skýrir frá því að rannsókn á því sem gerðist sé hafin.

Barnsley hefur staðfest að Stendel hafi orðið fyrir áverkum á andliti en sé „í lagi" eftir atvikið eftir leikinn. Fullyrt hefur verið í enskum fjölmiðlum að Barton hafi skallað Stendel sem hafi verið alblóðugur og misst tvær tennur.

Bæði félögin hafa verið beðin um að veita allar upplýsingar sem hægt sé til að upplýsa hvað átti sér stað. Sky Sports segir að lögreglan hafi þegar rætt við Barton og hann hafði samþykkt að aðstoða við að upplýsa málið, og muni mæta í formlegt viðtal eftir helgina. 

Fleetwood gaf frá sér yfirlýsingu um að félaginu hafi verið gert aðvart um atvik sem hafi átt sér stað eftir leikinn. Verið sé að kanna hvað hafi gerst og ekki félagið muni ekki segja neitt um málið að svo stöddu.

Framkvæmdastjóri ensku deildakeppninnar, Shaun Harvey, sagði við BBC að ljóst sé að alvarlegt atvik hafi átt sér stað og það þurfi að taka á því fljótt og vel. Lögreglurannsókn sé í gangi.

Joey Barton hefur stýrt Fleetwood undanfarið ár en hann á frekar skrautlegan feril að baki sem knattspyrnumaður þar sem hann hefur setið í fangelsi fyrir líkamsárás og þrisvar fengið löng keppnisbönn fyrir að ráðast að samherjum eða mótherjum. Þá tók hann út 18 mánaða bann á árunum 2017-18 fyrir ólögleg veðmál sem tengdust knattspyrnuleikjum. Barton lék 386 deildaleiki fyrir Manchester City, Newcastle, QPR, Marseille, Burnley og Rangers og lék einn landsleik fyrir Englands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert