Derby mætir Villa á Wembley

Frank Lampard knattspyrnustjóri Derby.
Frank Lampard knattspyrnustjóri Derby. AFP

Það verða Derby og Aston Villa sem mætast í hreinum úrslitaleik um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni á Wembley leikvanginum í London þann 27. þessa mánaðar.

Derby, undir stjórn Frank Lampard, gerði sér lítið fyrir og lagði Leeds 4:2 á Elland Road í Leeds í kvöld og vann þar með einvígið 4:3 en Leeds hafði betur í fyrri leiknum 1:0.

Stuart Dallas kom Leeds í forystu á 24. mínútu en varamaðurinn Jack Marriott jafnaði metin fyrir Derby, mínútu eftir að hafa komið inná á lokamínútum fyrri hálfleiks, 1:1.

Mason Mount kom Derby yfir á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og Harry Wilson kom liðinu í 3:1 með marki úr vítaspyrnu á 58. mínútu. Stuart Dallas minnkaði muninn fyrir Leeds á 62. mínútu, og jafnaði þar með einvígið samanlagt, en Marriott innsiglaði sigur Derby með sínu öðru marki á 85. mínútu leiksins.

Leikurinn var gríðarlega skemmtilegur og harður. Gulu spjöldin urðu níu talsins og rauðu spjöldin tvö. Gaetano Berardi úr Leeds fékk rautt spjald á 78. mínútu og Scott Malone úr Derby á 90. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert