Kemst City í metabækurnar?

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City lyftir bikarnum á loft sem …
Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City lyftir bikarnum á loft sem liðið fékk eftir sigur í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Manchester City getur í dag bætt þriðja bikarnum í safn sitt á þessu tímabili en þá mætir liðið Watford í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á Wembley.

City vann deildabikarkeppnina í febrúar og vann Englandsmeistaratitilinn annað árið í röð um síðustu helgi. Manchester-liðið þykir miklu sigurstranglegra liðið á Wembley í dag en meistararnir hafa verið á gríðarlegri siglingu. City hefur haft gott tak á Watford og hefur haft betur í síðustu tíu leikjum liðanna í öllum keppnum.

Nái Manchester City að vinna leikinn í dag verður það fyrsta liðið til að vinna alla þrjá bikarana sem keppt er um á Englandi í karlaflokki.

Manchester City hefur unnið ensku bikarkeppnina fimm sinnum en hefur tapað fimm bikarúrslitaleikjum. Watford hefur aldrei unnið bikarinn en liðið hefur einu sinni áður komist í úrslitaleikinn. Það var árið 1984 en þá tapaði liðið fyrir Everton 2:0.

Flautað verður til leiks á Wembley klukkan 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert