Alves vill komast til Englands

Dani Alves mun að öllum líkindum yfirgefa PSG í sumar …
Dani Alves mun að öllum líkindum yfirgefa PSG í sumar þegar samningur hans rennur út í júní. AFP

Knattspyrnumaðurinn Dani Alves vill spila á Englandi á næstu leiktíð en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Alves verður samningslaus hjá franska stórliðinu PSG í sumar en hann vill fá nýjan tveggja ára samning í Frakklandi en franska félagið er einungis tilbúið að framlengja við Alves til ársins 2020.

Það stefnir því allt í að þessi 36 ára gamli bakvörður muni yfirgefa Frakklandsmeistarana í sumar eftir tvö ár í herbúðum félagsins. Alves hefur aldrei spilað á Englandi en hann hefur meðal annars spilað fyrir stórlið Barcelona og Juventus á sínum ferli.

Liverpool hafði mikinn áhuga á leikmanninn sumarið 2008 en þá ákvað hann að ganga til liðs við Barcelona. Manchester City reyndi að fá hann sumarið 2017 þegar hann fór til PSG en ekki er talið liklegt að City og Liverpool reyni að fá leikmanninn í félagaskiptaglugga sumarsins.

mbl.is