Sjúkraþjálfararnir ekki hrifnir en þetta var fullkomið

Gylfi Þór Sigurðsson og Richarlison voru markahæstir Everton-manna í vetur …
Gylfi Þór Sigurðsson og Richarlison voru markahæstir Everton-manna í vetur með 14 mörk hvor í öllum keppnum. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segist vinna að því í hverjum leik að gleðja stuðningsmenn en stuðningsmenn Everton hafa nú valið mark hans gegn Leicester sem besta mark nýafstaðinnar leiktíðar hjá liðinu.

Gylfi skoraði með mögnuðum þrumufleyg gegn Leicester, eftir að hafa snúið laglega af sér varnarmann, og reyndist þetta sigurmark leiksins. Markið var jafnframt það fimmtugasta sem Gylfi skoraði í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en hann skoraði alls 13 mörk í deildinni í vetur.

„Við spilum fótbolta fyrir stuðningsmennina og þeir fylgjast með öllum okkar leikjum. Þess vegna er mjög sérstakt fyrir mann að eiga mark leiktíðarinnar að þeirra mati. Það þýðir að þeir hafa verið ánægðir með markið og við viljum gleðja stuðningsmennina,“ sagði Gylfi við heimasíðu Everton, en hann fagnaði markinu með því að renna sér á hnjánum til þeirra 3.000 stuðningsmanna sem fylgt höfðu Everton á heimavöll Leicester.

„Ég man eftir að hafa séð boltann fara inn og svo hljóp ég í áttina til þeirra. Það hafði rignt og völlurinn var blautur, svo ég vissi að það væri tilvalið að renna sér til þeirra. Sjúkraþjálfararnir eru ekki hrifnir af þessu fagni en þetta var fullkomið,“ sagði Gylfi. Hann var markahæstur Everton á leiktíðinni ásamt Richarlison en þeir skoruðu 14 mörk hvor um sig í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert