Lukaku gefur Conte undir fótinn

Romelu Lukaku er mikill aðdáandi Antonios Conte.
Romelu Lukaku er mikill aðdáandi Antonios Conte. AFP

Romelu Lukaku, framherji enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu í sumar. Lukaku kom til United sumarið 2017 en United borgaði Everton 75 milljónir punda fyrir belgíska sóknarmanninn.

Lukaku hefur verið orðaður við Inter Mílanó í ítölsku A-deildinni en Antonio Conte, fyrrverandi knattspyrnustjóri Juventus og Chelsea, tók við stjórnartaumunum hjá félaginu fyrr í sumar. „Fyrir mér er Conte besti knattspyrnustjóri í heiminum í dag,“ lét Lukaku hafa eftir sér í samtali við belgíska fjölmiðla.

„Ég hef tekið ákvörðun um framtíð mína en staðan er viðkvæm. Ég ber mikla virðingu fyrir Manchester United og er samningsbundinn félaginu og mun þess vegna ekki tjá mig meira um mína framtíð. Ég hef alltaf dáðst að ítölsku A-deildinni og ég hef sagt það margoft að ég vilji spila þar einn daginn,“ sagði Lukaku.

Lukaku átti ekki fast sæti í byrjunarliði Manchester United á nýafstaðinni leiktíð en þrátt fyrir það skoraði framherjinn 12 mörk í 22 byrjunarliðsleikjum í ensku úrvalsdeildinni en United endaði í sjötta sæti deildarinnar og mun leika í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

mbl.is