Verður sá dýrasti í sögu Tottenham

Tanguy Ndombele í leik með Lyon.
Tanguy Ndombele í leik með Lyon. AFP

Franska knattspyrnufélagið Lyon hefur samþykkt 65 milljóna punda tilboð enska félagsins Tottenham í Tanguy Ndombele. Hinn 22 ára gamli Ndombele mun skrifa undir fimm ára samning við Tottenham. 

Ndombele kom til Lyon frá Amiens síðasta sumar og kostaði Lyon tæplega átta milljónir evra, eða um sjö milljónir punda. Hann spilaði mjög vel með Lyon og er Tottenham reiðubúið að gera hann að dýrasta leikmanninum í sögu félagsins. 

„Tottenham er með magnað lið og félagið er stórt. Liðið endaði í fjórða sæti í deildinni og fór í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Af hverju ætti ég ekki að hafa áhuga á að fara í stórt félag?" sagði Ndombele við Telefoot á dögunum. 

Manchester United, PSG og Juventus höfðu öll áhuga á Ndombele, en nú er Tottenham að vinna kapphlaupið um leikmanninn. 

mbl.is