Ungstirnið skoraði tvívegis fyrir Liverpool

Rhian Brewster fagnar öðru marki sínu ásamt James Milner í …
Rhian Brewster fagnar öðru marki sínu ásamt James Milner í kvöld. Ljósmynd/@LFC

Hinn 19 ára gamli Rhian Brewster skoraði tvívegis fyrir enska knattspyrnufélagið Liverpool þegar liðið vann 6:0-sigur gegn C-deildarliði Tranmere Rovers á Prenton Park í æfingaleik í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Liverpool-liðsins á undirbúningstímabilinu en Nathaniel Clyne kom Liverpool yfir á 6. mínútu áður en Brewster bætti við tveimur mörkum til viðbótar undir lok fyrri hálfleiks.

Curtis Jones, Duvock Origi og Paul Glatzel bættu allir við mörkum fyrir Liverpool í síðari hálfleik og lokatölur því 6:0. Margir ungir leikmenn fengu tækifæri hjá Liverpool í kvöld en stærstu stjörnur liðsins eru ennþá í fríi eftir að hafa spilað í bæði Þjóðadeildinni og í Ameríkubikarnum. Alex Oxlade-Chamberlain var í byrjunarliðinu, líkt og Adam Lallana.

Þá fengu þeir Rhian Brewster, Ryan Kent, Nathaniel Phillips, Yasser Larouci og Harry Wilson allir tækifæri í byrjunarliðinu. Næsti æfingaleikur liðsins verður gegn D-deildarliði Bradford City þann 14. júlí næstkomandi á Northern Commercials-vellinum í Bradford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert