Birkir ætlar að nýta tækifærin

Birkir Bjarnason fagnar marki sínu gegn Minnesota.
Birkir Bjarnason fagnar marki sínu gegn Minnesota. Ljósmynd/Aston Villa

Birkir Bjarnason landsliðsmaður í knattspyrnu er ánægður með dvöl Aston Villa í Bandaríkjunum en þar er liðið við æfingar og keppni þessa dagana. Birkir skoraði glæsilegt mark í nótt, eins og áður hefur komið fram, þegar Aston Villa vann Minnesota United 3:0 í Saint Paul.

„Þetta er búin að vera mjög erfið vika með mörgum æfingum í 30 stiga hita eða meira en það hefur verið frábært, allt gengið vel og þetta fín byrjun á undirbúningstímabilinu," sagði Birkir í viðtali við Twitter-síðu Aston Villa í dag.

Aðspurður um markið og leikinn sagði Birkir: „Ég er auðvitað ánægður með að hafa náð að skora en liðið í heild stóð sig vel, við spiluðum vel og hópurinn virðist vera strax kominn í gott stand. Margir okkar hafa þurft að bíða lengi eftir því að spila, við vorum samt nokkrir sem spiluðum landsleiki í júní, en þetta kom vel út.

Þetta hefur verið góð ferð, gott fyrir okkur alla að komast í annað umhverfi. Það eru nýir strákar í hópnum og það er gott að eiga þessar stundir saman og vonandi mun það hjálpa liðinu," sagði Birkir.

Hann fékk lítið að spila seinni hluta síðasta tímabils þegar Aston Villa tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni en vonast til þess að fá tækifæri með liðinu þegar nýtt tímabil  byrjar.

„Ég vil alltaf spila, eins mikið og mögulegt er, og mun gera mitt besta til að nýta þau tækifæri sem gefast," sagði Birkir.

Aston Villa fékk mikinn stuðning á leiknum í nótt. Spurður um það sagði Birkir: „Það er ótrúlegt hve margir þeir voru á leiknum. Maður áttar sig á því hversu stórt félagið er þegar þú ert svona langt að heiman og samt er fjöldi stuðningsmanna á staðnum. Félagið er með svo öflugan bakgrunn  og það er magnað að sjá alla þessa stuðningsmenn hérna. Vonandi eigum við eftir að sýna þeim okkar bestu hliðar."

Aston Villa mætir Tottenham á útivelli í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar laugardaginn 10. ágúst. Liðið er á leið heim til Englands og mætir þremur liðum úr neðri deildunum en spilar síðan við RB Leipzig í Þýskalandi laugardaginn 3. ágúst, í lokaleik sínum fyrir tímabilið.

mbl.is