Vill sjá Bale á Anfield

Fyrrverandi fyrirliði Liverpool vill sjá Gareth Bale á Anfield á ...
Fyrrverandi fyrirliði Liverpool vill sjá Gareth Bale á Anfield á næstu leiktíð. AFP

Paul Ince, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, vill sjá Gareth Bale á Anfield á næstu leiktíð. Bale hefur verið sterklega orðaður við brottför frá Real Madrid í sumar en Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, vill ólmur losna við Bale frá félaginu í sumar og hefur hann verið orðaður við lið í kínversku úrvalsdeildinni.

Bale er með samning við Real Madrid til ársins 2022 og hann er sagður þéna í kringum 500.000 pund á viku á Spáni. Það er launaupphæð sem ekki mörg lið ráða við í heiminum í dag og því gæti vel farið svo að Bale sitji út samning sinn á Spáni. „Ef Liverpool hefur efni á því að fá hann þá ættu þeir að sækja hann,“ sagði Ince í samtali við BBC.

„Framlína Liverpool hefur verið ógnarsterk undanfarin ár en stærstu stjörnur liðsins, þeir Sadio Mané, Mohamed Salah og Roberto Firmino, fengu ekki mikla hvíld í sumar. Mané og Salah voru á Afríkumótinu og Firmino fór alla leið með Brasilíu í Ameríkubikarnum. Þeir fengu því litla sem enga hvíld og það verður áhugavert að sjá hvernig þeir koma inn undan sumrinu.“

„Bale getur spilað hægra megin, vinstra megin og í holunni. Ef hann er að horfa til liðs sem hefur efni á honum þá ætti hann að fara til Liverpool. Hann þyrfti að taka á sig launalækkun en hjá Liverpool getur hann komið ferli sínum af stað á nýjan leik og unnið titla. Liverpool mun gera harða atlögu að titlum á næstu árum,“ sagði Ince.

mbl.is