Sáum allir blóðið og trúðum þessu ekki

David Beckham og Sir Alex Ferguson eru mátar í dag.
David Beckham og Sir Alex Ferguson eru mátar í dag. AFP

Úrúgvæinn Diego Forlan lagði á dögunum knattspyrnuskóna á hilluna eftir 21 árs atvinnumannaferil. Forlan lék með Manchester United frá 2002 til 2004 og skoraði tíu mörk í 63 leikjum. 

Forlan var í búningsklefa United þegar Sir Alex Ferguson, þáverandi knattspyrnustjóri liðsins, og David Beckham, þáverandi leikmaður, rifust heiftarlega. Rifrildið endaði með að Ferguson sparkaði takkaskó í andlitið á Beckham sem fékk skurð fyrir ofan vinstra augað. 

Atvikið átti sér stað eftir 0:2-tap liðins fyrir Arsenal á Old Trafford í enska bikarnum. Ferguson bað Beckham afsökunar, en seldi hann svo til Real Madríd á 25 milljónir punda nokkrum mánuðum síðar. 

Rifrildið ljótara með hverju orðinu

Forlan segir að Roy Keane og Ruud van Nistelrooy hafi komið í veg fyrir slagsmál á milli Beckham og Ferguson. „Þetta var svakalegt rifrildi,“ rifjar Forlan upp í samtali við Mirror. „Þetta var eftir leik við Arsenal og Ferguson var ósáttur við að Beckham hjálpaði ekki Gary Neville við að verjast.

Beckham fékk myndarlegan skurð eftir atvikið.
Beckham fékk myndarlegan skurð eftir atvikið. Ljósmynd/English Premier League

Í búningsklefanum fóru þeir að móðga hvor annan og rifrildið varð ljótara með hverju orðinu. Þeir vildu báðir eiga síðasta orðið. Að lokum fór Ferguson og samtalið var búið, en svo hélt Beckham áfram. Þá sneri Ferguson við og sparkaði í takkaskó, sem fór framan í Beckham sem fékk skurð,“ sagði Forlan, sem trúði ekki sínum eigin augum. 

„Við sáum allir blóðið og trúðum þessu ekki. Örstuttu seinna ætluðu þeir að slást en Roy Keane og van Nistelrooy komust á milli þeirra og stoppuðu þá,“ sagði Forlan, sem annars ber Beckham söguna vel, annað en Cristiano Ronaldo.

„Ronaldo var egóistinn í búningsklefanum. Hann eyddi öllum deginum í að horfa í spegil,“ sagði Úrúgvæinn. 

Diego Forlan í leik með United.
Diego Forlan í leik með United. Ljósmynd/Manchester United
mbl.is