Enginn lét mér líða vel hjá United

Romelu Lukaku er orðinn leikmaður Inter á Ítalíu.
Romelu Lukaku er orðinn leikmaður Inter á Ítalíu. AFP

Belgíski knattspyrnumaðurinn Romelu Lukaku er ekki sáttur við hvernig Manchester United kom fram við hann er hann var seldur til Inter á dögunum. Inter greiddi United 73 milljónir punda fyrir framherjann í síðasta mánuði. 

„Það var mikið sagt og ég fékk ekki vernd. Það var mikið um orðróm um að ég væri að skipta um lið og enginn hjá United sagði neitt til að drepa orðróminn. Það var eins og þeim væri sama,“ sagði hann í hlaðvarpsþætti hjá Josh Hart, leikmanni New Orleans Pelicans í NBA-körfuboltanum. 

„Ég beið í 3-4 vikur eftir að einhver hjá félaginu segði að ég yrði áfram en enginn sagði neitt. Þá sagði ég þeim að það væri betra ef ég færi. Ég hefði viljað fá einhvers konar stuðningsyfirlýsingu. Auðvitað þarf maður að berjast um stöðuna hjá félaginu, en þú vilt líka vera hjá félagi sem vill hafa þig. 

Ef þú ert ánægður finnur þú leið til að berjast um sætið þitt. En enginn lét mér líða vel hjá United á meðan ég hlustaði á allan þennan skít í fjölmiðlum,“ sagði Lukaku, sem skoraði 42 mörk í 96 leikjum hjá United eftir að hann kom til félagsins frá Everton árið 2017. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert